Nordic angan
Að fanga angan íslenskrar flóru
Ævintýrið byrjaði allt í grænum mó með pabba að tína blóðberg eins og við gerðum alltaf til að nýta í te og krydd. Við fórum að tala um hvað ilmurinn væri æðislegur og hvað það væri magnað að geta fangað þessa lykt. Hann hafði lært að eima af þýskum efnafræðingi á námsárum sínum í Noregi og sagði mér að það væri ábyggilega hægt að extrakta lyktina úr blóðbergi. Við dustuðum rykið af gömlum bruggræjum sem pabbi átti í fórum sínum, uppfærðum þær og fórum að gera tilraunir. Eftir fjölmargar misheppnaðar tilraunir fór starfið loks að bera árangur og við fórum að prufa fleiri tegundir. Þessu næst var víðtæku rannsóknarverkefni hleypt af stokkunum sem gekk út á að þróa eimingartækni og leggja grunninn að ilmbanka íslenskra jurta. Verkefnið snérist um að rannsaka plöntur, grös og tré sem innihalda ólíka angan og efni. Með mismunandi eimingaraðferðum tókst að einangra ólíkar jurtir og ná úr þeim efnum í formi ilmkjarnaolíu eða kjarnamassa (e. absolute). Að auki höfum við látið efnagreina um þrjátíu íslenskar jurtir. Þessi aðferð hefur ekki áður verið notuð eða skjalfest á íslenskum plöntum, grösum og trjám og er þessi rannsóknarvinna mikilvægur þáttur í menningararfleifð okkar Íslendinga sem höfum frá örófi alda notast við náttúrumeðferð við öllum þeim kvillum sem okkar formæður- og feður hafa þurft lækningu eða líkn við.
Sérstaða og lykilverkefni Nordic angan
Nordic angan vinnur sínar eigin ilmkjarnaolíur og ilmefni frá grunni. Við ferðumst um allt land til sjávar og sveita og söfnum plöntum og grösum. Með eimingartækninni framleiðum við ilmkjarnaolíur, hydrosol/jurtavatn og ilmefni úr íslenskri náttúru. Olíurnar notum við svo til að miðla angan íslenskrar náttúru í gegnum ilmtengdar upplifanir og heildrænar hönnunarvörur svo sem sápur, sjampó, ilmvötn, húðvörur, skeggolíu, reykelsi og híbýlailm.
Sérstaða verkefnisins er einnig sú að hér er verið að vinna með sögu ilmvatnsgerðar í alþjóðlegu samhengi og tengja það við menningu, sögu og náttúru Íslands. Verkefnið er séríslenskt þar sem einblínt er á angan íslenskrar flóru, og í dag erum við komin með rúmlega 150 ilmefni í formi ilmkjarnaolía, koltvísýringsþykkna, jurtavatns (e. hydrosol) og tinktúra. Segja má að rannsóknarverkefnið haldi áfram og tengist m.a. sögu grasalækninga en að auki vinnum við með að þróa hugræna nálgun á ilmskynjun, þar sem til dæmis tengsl minnis og tilfinninga við ólíka angan er athuguð út frá svo kölluðu „lyktrófi“, sem hefur mun víðari skírskotun en klassísk ilmvatnsgerð.
Önnur verkefni og samstarfsverkefni
Í viðbót við að framleiða vörur frá grunni og markaðsetja þær höfum við tekið að okkur að vinna ilmi fyrir fyrirtæki, bæði í tengslum við svokallað scent marketing en einnig fyrir vörur eins og ilmvötn, híbýlailmi og unnið ilmblöndur fyrir húðvörur. Hugmyndin að baki samstarfsverkefnunum er að nýta ilmsafn Nordic angan og þekkingu til framleiðslu á ilmtengdri vöru fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja búa til vörur sem bera íslenska angan. Einnig vinnum við ilmvötn og ilmblöndur úr erlendum ilmgjöfum í bland við þau íslensku ilmefni sem við framleiðum sjálf. Þessi þjónusta hefur ekki verið í boði hér á landi áður og teljum við okkur vera nægilega kunnug til að geta veitt hana.
Nordic angan fangar og færir þér ilminn – perlu úr undirdjúpum íslenskrar náttúru. Anganin hittir skynfærin í hjartastað, vekur tilfinningar, víkkar út minnið og færir þér endurnærandi heilsubót.
Sonja Bent
stofnandi Nordic angan
Nordic angan - ilmbanki íslenskra jurta
Álafossvegur 27 bakhús
270 Mosfellsbær
info@nordicangan.com